Prent- og miðlunargreinar
Starfsárið 2024–2025 einkenndist af breytingum á áherslum í símenntun og umbreytingu á grunnnámi í prent- og miðlunargreinum. GRAFÍA og starfsgreinahópur fyrirtækja í prentiðnaði innan Samtaka iðnaðarins hafa unnið að sameiningu löggiltra iðngreina í prentsmíði, prentun og bókbandi undir eina löggilta iðngrein, prentsmíði. Leiðtogi prent- og miðlunargreina hefur gegnt hlutverki tengiliðar milli skóla og atvinnulífs síðustu tvö ár í þessum breytingum, sem hafa átt sér langan aðdraganda.
Markmið breytinganna er að nemendur fái sameiginlegan grunn í náminu við Tækniskólann og geti í kjölfarið valið sér áherslu á prentun, prentsmíði eða bókband, sem styrkist enn frekar með starfsnámi á vinnustöðum. Nemendur sem ljúka sveinsprófi í faginu öðlast réttindi til starfa í grafískum greinum og tækifæri til að sérhæfa sig á því sviði sem þeir kjósa. Breytingarnar munu jafnframt hafa víðtæk áhrif á framboð símenntunar í prentgreinum þar sem vaxandi þörf er á breiðari fagþekkingu og hæfni en áður.
Vélar og framleiðsluferli
Aukin þörf fyrir sérhæfingu og dýpri þekkingu fagfólks í prentiðnaði hafði afgerandi áhrif á námskeiðsframboðið. Sérstök áhersla var lögð á vélanámskeið og framleiðsluferli innan prentsmiðja. Á haustönn kom Jürgen Stoll frá Stoll Print Services til landsins. Hann býr yfir þrjátíu ára reynslu í viðhaldi Man Roland prentvéla og í kennslu og þjálfun á notkun þeirra. Mikilvægt er að prentarar, bókbindarar og aðrir sem koma að rekstri prentvéla hafi yfirgripsmikla þekkingu á einföldu viðhaldi og lausn algengra vandamála sem upp kunna að koma.
Námskeiðið fór fram í þremur prentsmiðjum þar sem Man Roland prentvélar eru notaðar og var kennt viðhald við ólíkar aðstæður og í tengslum við mismunandi verkefni. Einnig voru sett af stað námskeið sem tengdust framleiðsluferli í prentsmiðjum. Námskeið í PitStop Pro var haldið þrisvar sinnum á haust- og vorönn, og í framhaldinu verða boðin námskeið í útskotsforritum fyrir umbúðir auk viðbóta í Adobe Acrobat.
Sérhæfð námskeið í litastjórnun og bókbandi
Á vorönn var haldið metnaðarfullt námskeið í litastjórnun þar sem Art Suwansang kenndi einfaldar og árangursríkar aðferðir til litakalibreringar. Abel Sanchés sérfræðingur frá HP kom til landsins og ræddi um virðisaukandi þjónustu í prentsmiðjum.
Þá kom Gillian Stewart, margverðlaunaður bókbindari frá Skotlandi, og hélt vinnusmiðju fyrir bókbindara þar sem hún kynnti aðferðir sínar og miðlaði af reynslu sinni á alþjóðlegum vettvangi.
Eins og undanfarin ár er lögð áhersla á vítt og lifandi fræðsluframboð sem felst í hlaðvörpum, myndskeiðum og fræðslumolum til viðbótar við hefðbundið námskeiðahald.
