Alþjóðastarf
Alþjóðleg þróunarverkefni, samfélagsleg ábyrgð og samstarf um framþróun í iðnaði er mikilvægur hluti af starfsemi Iðunnar.

Alþjóðleg fræðsla og framþróun
Iðan fræðslusetur tekur virkan þátt í alþjóðlegu fræðslustarfi og framþróun þekkingar í löggiltum iðngreinum. Alþjóðlegt fræðslustarf Iðunnar byggir á stefnu sem leggur áherslu á umhverfi og ábyrgð, fjölbreytileika og inngildingu, stafræna umbreytingu og virkni í netverkum.
Með þátttöku í fjölbreyttum alþjóðlegum verkefnum hefur Iðan eflt tengslanet, styrkt faglega þróun og aukið gæði náms og starfsþjálfunar.
Sannvottun örnáms
Erasmus+ verkefnið MCEU snýst um að prófa nýja lausn ESB á sannvottun örnáms í ferðaþjónustu. Verkefnið er unnið í samstarfi við evrópska aðila og Samtök ferðaþjónustunnar og miðar að því að nýta bálkakeðjutækni til að tryggja öryggi og gildi viðurkenninga. Með þessu á að auðvelda hreyfanleika vinnuafls, styrkja stöðu starfsfólks og draga úr fölsunum.
EQAMOB
Annað Erasmus+ verkefni, EQAMOB, er leitt af Iðunni og miðar að því að innleiða evrópskt gæðamerki fyrir fyrirtæki sem taka þátt í náms- og starfsmannaskiptum.
Norræn samvinna um símenntun
Nordplus
Í mars 2025 tók Iðan þátt í Nordplus-verkefni þar sem fulltrúar frá Íslandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð komu saman í Reykjavík til að miðla reynslu og bera saman nálganir í símenntun. Áherslan var á sveigjanleg námsúrræði, örnám, raunfærnimat og stafrænar lausnir, með það markmið að þróa sameiginlega norræna nálgun á viðurkenningar örnáms yfir landamæri.