Matvæla- og veitingagreinar
Á árinu voru nokkrir erlendir sérfræðingar fengnir til landsins til að halda námskeið í matvæla- og veitingagreinum. Heimsmeistarinn í „flair“ Michael Moreni, hélt námskeið í „flair“ barmennsku og Serge Guillou var með bartækninámskeið sem hugsað var fyrir barþjóna og allt áhugafólk um kokteila-keppnir. Þá var eftirréttameistarinn og Netflix stjarnan Juan Gutierrez með tvö masterclass námskeið á árinu. Annars vegar þriggja daga námskeið þar sem eftirréttir og desertkökur voru í aðalhlutverki og hins vegar tveggja daga súkkulaði og konfekt námskeið.

Norræna nemakeppnin
Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu var haldin í Silkiborg í Danmörku í lok apríl. Keppendur frá Íslandi voru framreiðslunemarnir Silvia Louise Einarsdóttir nemi á Moss í Bláa Lóninu og Tristan Tómasson Manoury frá Íslenska Matarkjallaranum. Í matreiðslu kepptu þau Sindri Hrafn Rúnarsson frá Monkeys og Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir frá Grand Hótel. Þjálfari framreiðslunemanna var Finnur Gauti Vilhelmsson og Jakob Zarioh Sifjarson Baldvinsson þjálfaði matreiðslunemana. Íslensku keppendurnir stóðu sig með prýði og keppendurnir í framreiðslu hrepptu gullið í ár.