Mark­aðs- og kynn­ing­armál

Starfsárið boðaði töluverðar breytingar á markaðs- og kynningarmálum Iðunnar. Starfsmenn deildarinnar eru þrír og á starfsárinu var mikil áhersla lögð á markvissa starfsmannafræðslu og uppbyggingu. Þá var tekið upp nýtt skipulag á starfinu sem byggir á því að hver leiðtogi fær úthlutað tengilið á markaðsdeild sem vinnur náið með honum að markaðssetningu viðkomandi greinasviðs.

Vefurinn er stærsta og mikilvægasta markaðstæki Iðunnar og á vef iðunnar má finna ítarlegar upplýsingar um öll námskeið og viðburði. Á vefnum fer fram skráning á námskeið og umsýsla starfsfólks með námskeiðsskráningar, mætingar og flest annað sem varðar framkvæmd námskeiða. Á vefnum fer einnig fram fræðslumiðlun í formi styttri fróðleiksmola, pistla, hlaðvarps og fyrirlestra. Á starfsárinu voru tekin markviss skref í uppfærslu vefsins, bæði hvað námskeiðshluta og efnis- og miðlunarhluta varðar.   

Fjöldi netfanga á markpóstlistum jókst um 200 á starfsárinu og hefur náð 8.000 einstaklinga markinu. Markpóstar er sendir vikulega frá öllum greinasviðum með upplýsingum um námskeið á næstunni og aðra fræðslu, s.s. pistla, hlaðvörp eða annað efni. Markpóstar skila góðum árangri,t.a.m. hvað varðar skráningar á námskeið.  

Iðan fræðslusetur er til staðar á flestum stóru samfélagsmiðlunum, þ.e.  Facebook,  Instagram, Twitter, YouTube og LinkedIn. Áherslur og efnissköpun er ólík að umfangi eftir miðlum og framsetning miðar að sérstöðu hvers miðils fyrir sig. Umferð frá samfélagsmiðlum yfir á vef Iðunnar er mæld reglulega og í dag orðin mjög mikilvægur þáttur í markaðssetningu og miðlun fræðslu. 

Vefauglýsingar eru nýttar til að markaðssetja námskeið, efni og þjónustu Iðunnar. Mest áhersla hefur verið lögð á Facebook auglýsingar og auglýsingar í Google auglýsingakerfinu. Vefauglýsingar á íslenskum netmiðlum eru nýttar m.a. til að auglýsa raunfærnimat og hefur það skilað ágætum árangri. Á starfsárinu var auglýsingakostunum fjölgað og er nú einnig unnið með auglýsingar á ja.is og Alfreð. Þá var tekið í notkun auglýsingakerfið Púlsinn til birtingar auglýsinga á innlendum vefmiðlum. 

Fyrirtækjaheimsóknir

Markaðsdeild tók yfir umsýslu fyrirtækjaheimsókna á starfsárinu. Í því skyni að efla framkvæmd og utanumhald var smíðað umsýslukerfi innan Microsoft 365 kerfisins og hefur það komið að góðum notum.

Á starfsárinu voru heimsótt 157 fyrirtæki sem er stóraukning frá fyrra starfsári. Í fyrirtækjaheimsóknum eru það stjórnendur á vinnustað eða smærri hópar starfsmanna sem sitja kynningar. Oft er farið í fleiri en eina heimsókn í hvert fyrirtæki enda mikilvægt að fara vel yfir bæði fræðsluframboð og þá þjónustu sem starfsfólki stendur til boða. Farið er yfir námsframboð Iðunnar, gerðar kannanir meðal starfsfólks um fræðsluþarfir, raunfærnimat kynnt.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á fyrirtækjaheimsóknum til að auka gagnsemi þeirra fyrir félagsfólk. Leiðtogar greina fara oft saman í heimsóknir í stærri fyrirtæki með náms- og starfsráðgjafa. Því er nú bæði gerð grein fyrir fjölda heimsókna og fjölda fyrirtækja sem eru heimsótt. Fjöldi heimsókna var 189.Allar frekari upplýsingar um fyrirtækjaþjónustuna má finna á vef Iðunnar.

Fyrirtækjaheimsóknir

Prentmiðlar

Iðan auglýsir í fagritum, tengdum okkar greinum og í stærri miðlum, s.s. Morgunblaðinu, þegar við á. Það á t.d. við þegar auglýst eru sveinspróf og einstaka námskeið eða viðburðir. Á starfsárinu voru lögð drög að því að taka yfir auglýsingagerð Iðunnar í öðrum prentmiðlum og þá helst svæðisbundnum miðlum eins og landsbyggðarblöðum sem hafa mikla dreifingu og lestur innan sinna svæða og henta þvi vel til að auglýsa námskeiðsframboð og þjónustu Iðunnar. 

Viðburðir

Iðan tekur reglulega þátt í ýmsum viðburðum sem tengjast annað hvort fræðslustarfi eða iðnaði á einn eða annan hátt. Á starfsárinu stóð Iðan fyrir nýjum viðburði sem nefndur var Bransadagar ásamt því að taka þátt á Íslandsmóti iðngreina. 

Önnur markaðssetning 

Útvarpsauglýsingar eru nýttar þegar það á við og hafa t.a.m. komið að góðum notum til að auglýsa raunfærnimat hjá Iðunni.