Mannauður
Mannauðsstefna Iðunnar fræðsluseturs er í meginatriðum: Að ráða, efla og halda í hæft starfsfólk. Það var áskorun fyrir starfsfólk að takast á við skipulagsbreytingar á starfsárinu. Starfsfólk tókst á við breytingarnar af seiglu og reiknað meðmælaskor í lok starfsársins gefur til kynna ánægju með Iðuna fræðslusetur sem vinnustað. Á starfsárinu fór af stað viðamikil undirbúningsvinna til jafnlaunastaðfestingar.
Mannauðsstefna
Iðan leggur áherslu á að hjá fyrirtækinu starfi áhugasamt og hæft starfsfólk með víðtæka þekkingu, færni og reynslu. Að starfsfólk vinni eftir stefnu og framtíðarsýn Iðunnar þ.e. að Iðan fræðslusetur sé í fararbroddi í sí- og endurmenntun iðngreina, með fræðslu, miðlun og þjónustu sem stuðlar að framþróun í iðnaði. Að störf og verkefni starfsfólks skulu skipulögð þannig að starfsfólk geti sem best samræmt vinnu og einkalíf. Það skal gert með því að kynna starfsfólki áherslur í starfi Iðunnar sem eru að nýta tæknina, mæta þörfum, vekja athygli og vera ábyrg. Starfsfólk er hvatt til þess að vera í tengslum við félagsmenn, iðnaðarmenn og fyrirtæki í iðnaði með það að markmiði að vera í tengslum við þær þarfir sem eru til staðar á hverjum tíma. Jafnframt er unnið að því innan Iðunnar að skapa jákvæða fyrirtækjamenningu með því að starfsfólk fylgi eftir gildum Iðunnar sem eru framsækni, virðing og fagmennska. Þessu til stuðnings er Iðan með skilgreinda fræðslu-, jafnréttis-, eineltis-, áreitnisstefnur.
Vinnustaðamenning í skipulagsbreytingum
Það var áskorun fyrir starfsfólk Iðunnar fræðsluseturs að takast á við skipulagsbreytingar á starfsárinu.
Að loknu starfsári var lögð könnun fyrir starfsfólk Iðunnar og reiknað NPS meðmælaskor. Starfsfólk okkar mældist með 4,6 í meðmælaskor sem telst í hærra lagi en til viðmiðunar þá telst meðmælaskor upp á 5,0 vera framúrskarandi.
Jafnlaunastaðfesting
Iðan fræðslusetur fór á starfsárinu í undirbúningsvinnu til þess að fá jafnlaunastaðfestingu. Jafnlaunastaðfesting er staðfesting Jafnréttisstofu á því að lögð hafi verið fram gögn sem sýna fram á það, með fullnægjandi hætti, að launakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess mismuni ekki í launum á grundvelli kyns. Innan Iðunnar var farið í kerfisbundna úttekt á þeim launum og kjörum sem starfsmenn fyrirtækis njóta, í þeim tilgangi að kanna hvort um kynbundinn launamun sé að ræða innan fyrirtækisins. Óleiðréttur launamunur innan Iðunnar fræðsluseturs er 7,48% og leiðréttur launamunur er 0,55% sem er vel undir landsmeðaltali.
Geðheilsustefna
Iðan fræðslusetur setti sér geðheilsustefnu í samstarfi við Mental á starfsárinu til að hlúa að og stuðla að geðheilbrigði starfsfólks. Skipulagsbreytingar síðust mánaða sýndi hversu miklu samstilltur hópur starfsfólks getur komið í verk.
Geðheilsustefna Iðunnar er sáttmáli sem lýsir því hver við erum og hvernig við viljum eiga samskipti við hvert annað. Þetta er yfirlýsing um það hvernig starfsfólk Iðunnar skapar menningu sem nærir og stuðlar að geðheilbrigði allra í hópnum.
Starfsfólk Iðunnar í lok starfsárs 2022-2023
Mannauður 2022-2023
Endurmenntun starfsfólks | 1341 klst |
Meðmælaskor NPS | 4,6 |
Meðalaldur starfsfólks | 50,4 ár |
Hlutfall starfsmannaveltu | 4 |
Fjöldi starfsfólks | 27 |
Leiðréttur launamunur | 0,55% |